miðvikudagur, 19. september 2007

Veðramót


Ég mætti 10-15 mín. of seint á myndina því Purkhús var svo lengi að pumpa í ræktinni. Ef það er eitt sem ég hata þá er það að missa af byrjun á myndum. Oft gerist eitthvað merkilegt í byrjun og það tekur langan tíma að fatta hvað er í gangi. Ég komst þó fljótt inní söguþráð Veðramóta.

Myndin er þrusuvel gerð og skartar góðum leikurum. Hilmir Snær sýnir fantaleik og sannar sig sem einn besti leikari þjóðarinnar. Persónan Dísa er mjög vel leikin og er eitt mesta ómenni sem ég hef séð og með betri skúrkum íslenskrar kvikmyndasögu. Hún var allan tímann með eitthvað djöfullegt plott og maður var hræddur við hana. Sammi er einnig mj0g vel leikinn. Söguþráður myndarinnar er einnig frábær og umhverfið var mjög flott. Ég hélt að þessi mynd yrði um barnamisnotkun í tengslum við Breiðavíkurmálið en síðan kom í ljós að Veðramót var nokkuð huggulegur staður. Það er fortíð krakkanna sem er hryllingur.

Ég fann ekki fyrir því að ég væri að horfa á íslenska mynd, öfugt við Astrópíu þar sem kjánahrollurinn var allsráðandi. Skrýtið að þessi mynd fái miklu minni aðsókn en Astrópía.

Myndin fær 3,5 stjörnur af 5 mögulegum.

laugardagur, 15. september 2007

American Movie


Ótrúlega langdregin mynd sem á þó sína gullnu kafla. Myndin fjallar um ruglaðan gaur (Mark) sem á sér þann draum að verða ríkur og frægur leikstjóri. Það tekst þó ekki hjá honum, og mun líklega aldrei takast, þar sem hann er algjör amatúr, bláfátækur og stórskrýtinn. Myndin sýnir nokkur ár úr lífi hans þar sem hann er að reyna að klára myndina Coven. Þökk sé ótrúlegri þrjósku tekst það að lokum. Coven er samt bara um 40 mín. og ég efast um að hún sé meistarverk (fær 4,2 á imdb).
Aðal skemmtunin við myndina eru persónurnar og þær halda henni á floti. Mark ásamt steikta vini sínum og Uncle Bill eru með furðulegri mönnum sem ég hef séð.
Ég var farinn að dotta yfir þessari mynd, enda oft langir kaflar þar sem lítið merkilegt var að gerast. Ég vaknaði svo við atriðið þar sem gamli skröggurinn, Uncle Bill, er að reyna að rausa örfáum setningum út úr sér við tökur myndarinnar Coven (http://www.youtube.com/watch?v=-v1UddiYpfQ).

Myndin fær 2,5 stjörnur af 5 mögulegum.