sunnudagur, 25. nóvember 2007

Det sjunde inseglet


Eftir fyrirlesturinn um Bergman langaði mig einmitt að sjá Sjöunda innsiglið. Crád-plíserinn Siggi Palli sýndi hana í fyrstu óvissusýningunni og sá til þess að ósk mín rættist. Myndin stóðst allar mínar væntingar. Þetta er súrrealísk gamanmynd um lífið, dauðan og trúna. Riddari tekst á við Dauðann um líf sitt í skák. Dauðinn er persónugerður sem snilldar gaur í svörtum kufli með fínan húmor. Riddarinn Antonius Block, aðalpersónan, er líka skemmtilegur karakter sem leitar að tilgangi lífsins. Skákin er spiluð í köflum og á milli þess að spila skákina ferðast Block og hittir ýmsa förunauta. Hann lærir ýmislegt á þessu ferðalagi og nær að lokum takmarki sínu.
(Sá á Rotten-tomatoes að bæði Block og Dauðinn nota hrókeringu í skákinni þótt hún hafi ekki komið í skák fyrr en á 16.öld. Bergman hefur greinilega ekki kynnt sér leikinn til fullnustu).
-
Myndin fær 3,5/5 stjörnum.

Heitt í kolunum (Some Like it Hot)

Tveir gaurar klæða sig upp sem konur á flótta undan einhverjum mafíósum. Síðan lenda þeir í pínlegum uppákomum og bölvuðu basli (t.d. að karlmaður verður skotinn í öðrum þeirra). Hljómar ekkert spennandi en er það samt, kannski aðallega út af því að myndin er frá 1959. Það er heill hellingur af "nýlegum" myndum sem ganga út á eitthvað svipað og flestar eru þær ömurlegar (t.d. She´s the Man, Juwanna Mann, Big Momma´s House o.fl.). Þetta er ein af fyrstu myndunum sem fjalla um klæðskiptinga og eitthvað því um líkt og er þess vegna ein af perlum kvikmyndanna. Á sínum tíma hefur hún líklega slegið í geng. Myndin hefur elst nokkuð vel en samt finnst mér þetta ekkert sjúklega góð mynd, samt betri en flestir eftirmenn sínir. Mér finnst Jack Lemmon snillingur, einn besti gamanleikari sinnar tíðar.

Myndin fær 3/5 stjörnur.

miðvikudagur, 21. nóvember 2007

Das Cabinet des Dr. Caligari


Furðufuglinn dr. Caligari sýnir "spámanninn" sinn, Cesare, sem á að geta spáð í framtíðina. Sýningum þeirra fylgja morð og þorpsbúa fer að gruna ýmislegt. Endirinn er síðan eitthvað svaka twist sem ég fattaði ekki. Kannski á það að vera þannig.
Þetta er furðuleg hryllingsmynd. Skil nú ekki bloggara á imdb sem segja myndina meistarastykki sem hafi breytt lífi þeirra. Þetta er ágæt mynd en mér finnst hún ekkert hafa elst svo vel, þetta er frekar dauf mynd nú í dag. Árið 1920 hefur hún eflaust verið mjög ógurleg og framandi. Hún má samt eiga það að vera furðuleg, umhverfið allt bjagað og persónurnar stórskrýtnar.

Myndin fær 2,5/5 stjörnum.

þriðjudagur, 20. nóvember 2007

American Gangster


Sá myndina í bíó um helgina og fannst hún drullugóð. Þetta er einhvers konar mafíósa mynd sem gerist í Bandaríkjunum á tíma Víetnam stríðsins. Sniðugur blökkumaður verður stórlax í fíkniefnaheiminum í New York á stuttum tíma og það eru ekki allir sáttir með það. Sikileyingar hafa aldrei heyrt aðra eins þvælu, að einhver negri sé að skjóta þeim ref fyrir rass.

Þetta byggir allt á sönnum atburðum, en maður veit sosem aldrei hversu mikið af myndum sem eru byggðar á sönnum atburðum er satt. Stórleikararnir Denzel Washington og Russel Crowe leika í myndinni og Denzel er ótrúlega trúverðugur sem heróínkóngur og Guðfaðir Harlem. Russel leikur síðan heiðvirða löggu sem vill "busta" Denzel. Veit ekki hvort þessi fullkomna lögga sé sönn. Allt útlit myndarinnar er mjög flott og söguþráðurinn snilld, það eina sem hægt er að setja út á hana er lengdin, hún gerist mjög hægt. Samt var ég aldrei nálægt því að sofna eins og gerist við aðra hverja mynd sem ég horfi á. Mæli með að menn sjái þessa mynd.

Skelli 4/5 stjörnum á hana.