þriðjudagur, 16. október 2007

Notorious (Alfred Hitchcock)

Myndinni er leikstýrt af goðsögninni Alfred Hitchcock og ég verð að segja að hann er með betri leikstjórum síns tíma. Hann kann sko sannarlega að skapa spennu. Fáar myndir jafnast á við meistaraverkið Psycho og þegar ég var lítill var ég skíthræddur við fuglana í Birds. Samt finnst mér endirinn í Birds frekar asnalegur. Sömu sögu má segja um Notorious. Það vantar eitthvað ''twist'' eða drama í endinn, líkt og í Psycho. Þótt allt endi vel og nasistinn Alex fái makleg málagjöld er endirinn ekkert spes. Mér finnst góður endir í myndum lykilatriði. Það sem gerir Psycho að meistaraverki er endirinn. Í þokkabót vorkenndi ég aumingja Alex í endinn, hann var aldrei sýndur sem nógu mikið illmenni (fyrir utan að vera nastisti, sem er reyndar hryllilegt). Hitchcock hefði átt að láta hann fremja eitthvað voðaverk í myndinni til að sýna illsku hans.

Fyrir utan þetta er þetta samt nokkuð góð mynd. Cary Grant og Ingrid Bergman leika aðalpersónurnar vel og sambandið milli persóna þeirra gengum myndina er mjög sérstakt. Þau vita aldrei hvernig þau eiga að haga sér og eru alltaf að prófa hvort annað. Hitchcock tekst að skapa mikla spennu í gegnum myndina. Gef henni 3 og hálfa stjörnu af 5 mögulegum.

mánudagur, 15. október 2007

Sen to Chihiro no kamikakushi (Spirited Away)

Ég fór að grennslast fyrir um þessa mynd þegar ég kom heim af Nótt á vetrarbrautinni sem var sýnd á RIFF. Fann Spirited Away á http://www.imdb.com/ og komst að því að hún er í 57. sæti á topplistanum þar. Andstætt leiðinlegu geimköttunum í Nótt á vetrarbrautinni er þessi mynd með þeim betri sem ég hef séð. Þetta er japönsk anime mynd, rétt eins og N.á v. en algjör andstæða við hana. Hún er miklu flottari, skýrari og einfaldlega betri.
Söguþráðurinn er á þá leið að stelpa lendir á svæði sem er einhverskonar hvíldarstaður guða. Guðir af öllum stærðum og gerðum koma þangað til að skemmta sér. Foreldrar stelpunnar breytast í svín þegar þau falla í einhverja gildru og hún lendir í ótal hremmingum við að reyna að breyta þeim aftur og fara frá þessum stað. Ég er kannski ekki að lýsa þessu nógu vel, hljómar kannski fáránlega en þetta er samt geðveik mynd. Mjög dularfull, minnir á Lísu í Undralandi.
Það er soldið síðan ég sá þessa mynd svo ég man hana ekkert í smáatriðum. Verð að horfa á hana aftur við tækifæri.


Gef henni 4/5 stjörnur.

sunnudagur, 14. október 2007

RIFF: Rótleysi (vegleg færsla)



Besta myndin sem ég sá á kvikmyndahátíðinni. Miðað við hinar myndirnar sem ég sá var þessi meistarastykki. Ég hélt að það rötuðu bara perlur kvikmyndagerðar inn á svona hátíð og þess vegna voru væntingar mínar kannski of miklar fyrir flestar myndirnar. Þar sem ég er enginn kvikmyndaséní höfðuðu kannski ekki allar myndirnar til mín. Japanska anime myndin Nótt á vetrarbrautinni var að mínu mati langdregin og leiðinleg, þótt ég sé nokkuð hrifinn af þesskonar myndum. Þið, lifendur og Eigið þér annað epli voru steiktar myndir sem áttu sín moment en voru í heildina engin meistarverk. Sömu sögu má segja um Stelpur rokka. En Rótleysi fannst mér mjög góð. Skemmtileg gamanmynd með snilldar söguþræði.
Myndin fjallar um þrjá afar ólíka menn sem leggja af stað í ferðalag um Tékkland til þess að gifta þann yngsta og minnir söguuppbyggingin svolítið á Little Miss Sunshine (þunglyndi sonurinn í LMS samsvarar syninum í Rótleysi). Þeir stoppa á ýmsum stöðum og lenda sömuleiðis í ýmsum hrakninum. Mér fannst sérstaklega gaman að þessari mynd því Tékkland er svo ótrúlega líkt Póllandi, allavega í landslagi og tungumáli (ég ætlaði nú að fara á pólsku myndina Híena en heyrði hroðalega dóma um hana svo ég sleppti því). Sjálfur hef ég nú ferðast um Pólland og Tékkland og það dró mig enn meira inn í myndina. Persónurnar nota orðið ''kurva'' óspart og af einhverjum ástæðum hló salurinn alltaf þegar það var nefnt.
Aðal uppistaða myndarinnar eru skemmtilegar persónur og góður söguþráður. Mennirnir þrír eru af sígaunaættum, en sýna það þó mismikið. Aðalpersónan er Jura, siðmenntaður maður sem vill ekki halda í við sígaunahefðina. Pabbi hans, Roman, er svona mitt á milli nútímans og gömlu sígaunatímanna. Þriðji maðurinn er svo frændi þeirra, Stano. Hann er stoltastur af sígaunaarfleiðinni og þykist vera 100% sígauni, en er það í rauninni ekki. Í upphafi vill Jura ekkert með þessa ferð hafa en skoðun hans breytist þegar líður á ferðina. Þetta er svosem ósköp klisjukennt en söguþráður myndarinnar í heild er nokkuð frumlegur. Í myndinni er verið að segja aðra sögu, þ.e. Roman er að skrifa sögu sem hann vill að verði sígaunaepík. Gegnum myndinni er svo alltaf skipt reglulega á milli raunveruleikans og sögunnar sem hann er að skrifa, og sú saga er ansi skemmtileg.
Myndin fær bara 5,5 á IMDB sem er óskiljanlegt og sýnir að það er ekkert alltaf hægt að stóla á þá síðu. Ég gef myndinni 4 stjörnur af 5 mögulegum og mæli eindregið með henni. Bíóhúsin ættu að skella henni í sýningar.

RIFF: Eigið þér annað epli? (vegleg færsla)


Súrrealísk mynd frá Íran sem meikar ekkert sens, en er samt nokkuð skemmtileg. Myndin fjallar um svangan og sauðheimskan mann sem gerir ekkert annað en að borða og hlaupa. Við eltum hann um furðulegt land þar sem strangir og dularfullir gaurar á mótorhjólum með ljái ráða ríkjum. Maður veit ekki hvort þessir menn eiga að tákna eitthvað og hvort þetta sé einhver ádeilumynd en það er aldrei minnst á trúarbrögð eða þjóðflokka.
Feiti furðufuglinn sem getur hlaupið endalaust ber myndina uppi og fer á kostum. Hann getur ekki hætt að hugsa um mat og gengur illa að fá hann. Hann er mjög einfaldur í hugsun og minnir á Hómer Simpson, fyrir utan hlaupahæfileikann. Svörtu ljáarmennirnir geta aldrei náð honum því það eina sem hann er góður í er að hlaupa. Hann er hetjan í myndinni og berst gegn harðstjórninni en klúðrar í rauninni málunum hvar sem hann fer. Hann er ekki þessi dæmigerða hetja, enda sköllóttur og feitur vandræðapési. Söguþráður myndarinnar er mjög frumlegur og furðulegur um leið. Á flakki sínu um landið ráfar hetjan inn í ýmis þorp þar sem skrítnar reglur yfirvalda ákvarða líf fólksins. Í einum bænum er fólkinu t.d. skipa að sofa mest allan daginn og ég skil ekki hvernig þorpsbúar halda sér á lífi. Myndin dalar svolítið þegar líður á og þetta nýja frumlega hættir að vera fyndið (svipað og í Þið, lifendur).
Það er ýmislegt skrýtið í myndinni. Mesta athygli vekur hljóðið og sum lítil hljóð sem ættu varla að heyrast eru mögnuð upp og t.d. þegar söguhetjan fær sér bita af brauði með fullt af öðrum hljóðum í bakgrunni heyrist ógnarhátt ’’KRSKTJ’’ þegar hann bítur í það. Slagsmálin í myndinni eru líka mjög kjánaleg. Fólk virðist alltaf vera í gamnislag og slagsmálin eru aldrei mjög raunveruleg. Það er líka stórfurðulegt þegar hetjan tekur sjálfa sig sem gísl í eitt skiptið til að sleppa frá vondu köllunum. Gef myndinni 3 stjörnur af 5 mögulegum.

fimmtudagur, 4. október 2007

RIFF: Þið, lifendur (Du levande)

Nokkuð lúmsk mynd. Ég var fullur eftirvæntingar fyrir hana, enda heyrt góða hluti. Ég hafði kannski of miklar væntingar fyrir myndina, því eftir á fannst mér hún ekkert meistarstykki, bara ágæt. Aðaleinkenni myndarinar er myndatakan, sem er mjög sérstök því myndavélin er (næstum) alltaf kyrr. Öll atriðin eru bara einn rammi sem hreyfist ekkert.
Myndin byrjaði mjög fersk með þunglyndri syngjandi kellingu og í kjölfarið fylgdu snilldaratriði um t.d. hlægilegan hljóðfæraleikara og brotið postulín. Atriði þar sem dómarar í réttarsal þamba bjór, láta eins og á uppboði og senda svo mann í rafmagnsstólinn fyrir að brjóta nokkra diska (og yfir 200 ára gamla skál) er snilld. Eftir þetta dalaði myndin svolítið og það eina sem skemmti mér var miðaldra kona sem gat ekki hætt að hlæja. Sama þótt ekkert merkilegt væri í gangi hló hún og hló. Mér var þó farið að leiðast í endinn, og meira að segja konan hætti að hlæja þegar leið á. Í myndinni er fullt af lúmskum brandörum og mörg atriðin mjög kómísk. Samt sem áður voru mörg þessara atriða í leiðinni frekar dauf og langdregin. Söguþráðurinn var í raun enginn, bara atriði sem tengdust af og til.

Myndin fær 3 stjörnur af 5 mögulegum.

miðvikudagur, 3. október 2007

RIFF: Svæfandi nótt á vetrarbrautinni

Var þetta pabbi bleika kattarins á brúnni? Hvaða gulu þríhyrningar voru þetta? Afhverju svaraði moldvarpan í prentsmiðjunni ekki símanum?
Þessar spurningar og ótal fleiri skyldi myndin Nótt á vetrarbrautinni eftir sig. Þetta var japönsk anime teiknimynd. Ég hafði þónokkrar væntingar fyrir þessa mynd eftir að hafa séð frábæra mynd í sama flokki síðasta aðfangadag sem hét Spirited Away. Mæli með þeirri mynd. Get ekki sagt það sama um þessa. Við fórum þrír saman á hana en dottuðum allir yfir henni. Það var aðeins eitt sem stóðst væntingar og það var hversu súr myndin var. Allt annað, eins og söguþráðurinn og teikningin var hörmung. Myndinni er lýst svo á http://www.riff.is/: Myndin segir frá tveimur köttum sem fara í ævintýralegt ferðalag út í geiminn á járnbraut sem ferðast á milli stjarnanna. Þetta er falleg og tímalaus saga um lífið, dauðann, vináttu og missi. Puff... hljómar nokkuð spennandi en var það ekki. Fullt af glórulausum atriðum í þessari mynd og ekki tók ég eftir fallegri og átakamikilli sögu.
Á undan myndinni var sýnd japönsk stuttmynd sem var betri en aðalmyndin. Hún var teiknuð drungalega og músíkin í samræmi við það, sem skapaði spennuþrungið andrúmsloft. Hún fjallaði um tvo veiðimenn sem þvælast inn á stórfurðulegan veitingastað í skóginum.

Nótt á vetrarbrautinni fær 1,5 stjörnu af 5 mögulegum.

The General

Þótt myndin væri á topp tíu kennarans hafði ég mínar efasemdir. Ég bjóst við leiðinlegri svart-hvítri, þögulli og langdreginni mynd. Þótt hún reyndist svo vera svart-hvít og þögul var hún síður en svo leiðinleg. Hún var frábær! Veiklulegi trúðurinn sem titlaði sig sem lestarstjóra í byrjun myndarinnar sýndi fantaleik. Hann náði að gera aulahúmor fyndinn. Allir halda með lestarstjóranum og þrátt fyrir að hann sé algjör klaufi og nánast heyrnarlaus er hann hetja í enda myndarinnar. Þótt myndin sé frá 1927 eldist hún frábærlega og enn í dag er þetta meistaraverk. Það er "action" alla myndina og aldrei dauður punktur. Ógleymanlegur svipurinn á einum af liðsforingjum Norðurhersins eftir að hafa sent birgðalestina ofan í ána.

Myndin fær 4 stjörnur af 5 mögulegum.