sunnudagur, 14. október 2007

RIFF: Rótleysi (vegleg færsla)



Besta myndin sem ég sá á kvikmyndahátíðinni. Miðað við hinar myndirnar sem ég sá var þessi meistarastykki. Ég hélt að það rötuðu bara perlur kvikmyndagerðar inn á svona hátíð og þess vegna voru væntingar mínar kannski of miklar fyrir flestar myndirnar. Þar sem ég er enginn kvikmyndaséní höfðuðu kannski ekki allar myndirnar til mín. Japanska anime myndin Nótt á vetrarbrautinni var að mínu mati langdregin og leiðinleg, þótt ég sé nokkuð hrifinn af þesskonar myndum. Þið, lifendur og Eigið þér annað epli voru steiktar myndir sem áttu sín moment en voru í heildina engin meistarverk. Sömu sögu má segja um Stelpur rokka. En Rótleysi fannst mér mjög góð. Skemmtileg gamanmynd með snilldar söguþræði.
Myndin fjallar um þrjá afar ólíka menn sem leggja af stað í ferðalag um Tékkland til þess að gifta þann yngsta og minnir söguuppbyggingin svolítið á Little Miss Sunshine (þunglyndi sonurinn í LMS samsvarar syninum í Rótleysi). Þeir stoppa á ýmsum stöðum og lenda sömuleiðis í ýmsum hrakninum. Mér fannst sérstaklega gaman að þessari mynd því Tékkland er svo ótrúlega líkt Póllandi, allavega í landslagi og tungumáli (ég ætlaði nú að fara á pólsku myndina Híena en heyrði hroðalega dóma um hana svo ég sleppti því). Sjálfur hef ég nú ferðast um Pólland og Tékkland og það dró mig enn meira inn í myndina. Persónurnar nota orðið ''kurva'' óspart og af einhverjum ástæðum hló salurinn alltaf þegar það var nefnt.
Aðal uppistaða myndarinnar eru skemmtilegar persónur og góður söguþráður. Mennirnir þrír eru af sígaunaættum, en sýna það þó mismikið. Aðalpersónan er Jura, siðmenntaður maður sem vill ekki halda í við sígaunahefðina. Pabbi hans, Roman, er svona mitt á milli nútímans og gömlu sígaunatímanna. Þriðji maðurinn er svo frændi þeirra, Stano. Hann er stoltastur af sígaunaarfleiðinni og þykist vera 100% sígauni, en er það í rauninni ekki. Í upphafi vill Jura ekkert með þessa ferð hafa en skoðun hans breytist þegar líður á ferðina. Þetta er svosem ósköp klisjukennt en söguþráður myndarinnar í heild er nokkuð frumlegur. Í myndinni er verið að segja aðra sögu, þ.e. Roman er að skrifa sögu sem hann vill að verði sígaunaepík. Gegnum myndinni er svo alltaf skipt reglulega á milli raunveruleikans og sögunnar sem hann er að skrifa, og sú saga er ansi skemmtileg.
Myndin fær bara 5,5 á IMDB sem er óskiljanlegt og sýnir að það er ekkert alltaf hægt að stóla á þá síðu. Ég gef myndinni 4 stjörnur af 5 mögulegum og mæli eindregið með henni. Bíóhúsin ættu að skella henni í sýningar.

Engin ummæli: