sunnudagur, 14. október 2007

RIFF: Eigið þér annað epli? (vegleg færsla)


Súrrealísk mynd frá Íran sem meikar ekkert sens, en er samt nokkuð skemmtileg. Myndin fjallar um svangan og sauðheimskan mann sem gerir ekkert annað en að borða og hlaupa. Við eltum hann um furðulegt land þar sem strangir og dularfullir gaurar á mótorhjólum með ljái ráða ríkjum. Maður veit ekki hvort þessir menn eiga að tákna eitthvað og hvort þetta sé einhver ádeilumynd en það er aldrei minnst á trúarbrögð eða þjóðflokka.
Feiti furðufuglinn sem getur hlaupið endalaust ber myndina uppi og fer á kostum. Hann getur ekki hætt að hugsa um mat og gengur illa að fá hann. Hann er mjög einfaldur í hugsun og minnir á Hómer Simpson, fyrir utan hlaupahæfileikann. Svörtu ljáarmennirnir geta aldrei náð honum því það eina sem hann er góður í er að hlaupa. Hann er hetjan í myndinni og berst gegn harðstjórninni en klúðrar í rauninni málunum hvar sem hann fer. Hann er ekki þessi dæmigerða hetja, enda sköllóttur og feitur vandræðapési. Söguþráður myndarinnar er mjög frumlegur og furðulegur um leið. Á flakki sínu um landið ráfar hetjan inn í ýmis þorp þar sem skrítnar reglur yfirvalda ákvarða líf fólksins. Í einum bænum er fólkinu t.d. skipa að sofa mest allan daginn og ég skil ekki hvernig þorpsbúar halda sér á lífi. Myndin dalar svolítið þegar líður á og þetta nýja frumlega hættir að vera fyndið (svipað og í Þið, lifendur).
Það er ýmislegt skrýtið í myndinni. Mesta athygli vekur hljóðið og sum lítil hljóð sem ættu varla að heyrast eru mögnuð upp og t.d. þegar söguhetjan fær sér bita af brauði með fullt af öðrum hljóðum í bakgrunni heyrist ógnarhátt ’’KRSKTJ’’ þegar hann bítur í það. Slagsmálin í myndinni eru líka mjög kjánaleg. Fólk virðist alltaf vera í gamnislag og slagsmálin eru aldrei mjög raunveruleg. Það er líka stórfurðulegt þegar hetjan tekur sjálfa sig sem gísl í eitt skiptið til að sleppa frá vondu köllunum. Gef myndinni 3 stjörnur af 5 mögulegum.

Engin ummæli: