miðvikudagur, 16. apríl 2008
Lokafærslan
Fagið var mjög tilraunakennt og öll skipulagning ný af nálinni. Við prófuðum okkur áfram allt árið og skipulögðum það bara jafn óðum, þótt það hafi verið ákveðið handrit í upphafi var mikið vikið út af því ef maður líkir þessu við kvikmyndagerð. Það var góður mórall í námskeiðinu og það var alltaf frekar opin umræða í gangi, sem var mjög gaman.
Það sem stendur uppúr er pottþétt stuttmyndagerðin sem er langmestspennandi þátturinn við kvikmyndagerð og ég held að flestir sem velja fagið vilji hafa verklega þáttinn sem stærstan. Það hefði verið gaman að hafa þannig verkefni í gangi allt árið til að nýta myndavélina og tölvuna sem best. Klippitölvan er alveg ótrúleg græja og með nægum tíma er hægt að gera endalaust af skemmtilegu dóti í henni. Þar sem við fengum tölvuna ekki fyrr um mitt skólaárið var það ekki hægt í ár. Mér fannst stuttmyndagerðin nýtast manni best, maður lærði langmest í kvikmyndagerð á henni en handritagerð er líka mikilvægur þáttur. Aðalreglan sem maður lærði var að vera skipulagður í þessum bransa. Það er líka mjög gaman að fá leikstjóra í heimsókn.
Það verður ýmislegt sem verður hægt að bæta fyrir næsta ár. Það var of mikið að verkefnum troðið í námskeiðið í upphafi og þau hlóðust upp í endinn og sleppa varð einhverjum verkefnum. Mér fannst of mikið fjallað um gamlar kvikmyndir og of mikið af þeim sýnt. Það mætti líka vanda betur valið á myndum, margar voru ekki að slá í gegn en hver hefur sinn smekk...
Bloggkerfið þarf líka að hugsa vel. Það þyrfti að hvetja menn meira til að blogga, og setja jafnvel bloggkvóta í hverri viku og dæma færslur þá. Menn þyrftu að pósta kannski 1-2 færslum á viku. Þegar í ljós kom að menn voru ekki að ráða við 30 blogga kvótann hefði átt að lækka aðeins kröfurnar en þá kom allt í einu nýtt kerfi sem setti miklu meiri kröfur á menn en áður. Þetta kerfi er í raun mjög sniðugt (þótt það sé mikil aukavinna fyrir Sigga Palla) og það ætti endilega að nota það áfram, en það þyrfti kannski aðeins að breyta því, því þessar löngu færslur taka heila eilífð að skrifa. Nú er samt meira vit í færslunum hjá öllum og skemmtilegra að lesa þær. Gömlu bloggin voru mörg frekar óspennandi. Þetta nýja kerfi er ef til vill bara ágætt eftir allt saman... En það mætti allavega dæla fleiri stigum í þessar færslur.
Nú er ég kominn með ógeð af því að blogga og mun líklega aldrei gera það aftur á ævinni, eftir þessar 15 færslur á örfáum dögum. Ég nenni ekki að hafa þessa færslu lengri og vill bara hrósa Sigga Palla fyrir frábært fag og þar með hef ég pikkað inn minn síðasta staf. Jess...
PS. Youtube videóin ættu að virka, þau eru öll inni enn og virka alla vega hjá mér...
Brúðguminn
SPOILER-blogg
Brúðguminn kom út í ár og hlaut mjög góðar viðtökur. Myndin fær 8,3 á imdb, sem er mjög gott en það er reyndar lítið að marka það þar sem atkvæðin eru aðeins 47 og pottþétt allt Íslendingar sem ofmeta myndina. Baltasar Kormákur leikstýrði myndinni og er orðinn frægasti leikstjóri á Íslandi og stefnir hraðbyri til Hollywood. Eftir Mýrina, sem heppnaðist snilldarlega, og nú Brúðgumann er hann að fara að leikstýra Run for Her Life í Bandaríkjunum. Ég var eiginlega spenntastur fyrir að fá hann í leikstjóraspjall af öllum leikstjórunum sem við fengum enda er hann skemmtilegur karakter og frábær leikstjóri. Það hefði verið gaman að heyra hans hugmyndir. Myndin er lauslega byggð á leikritinu Ivanov en ég veit ekki hversu mikið er líkt með þeim. Það hefði samt verið gaman að sjá leikritið líka til samanburðar.
Myndin fjallar um giftingu miðaldra karlmanns og ungrar sveitastelpu sem ákveða að halda brúðkaupið í Flatey. Þessu fylgir heljarinnar vesen, rugl og dramatík. Inn í myndina koma síðan flassbökk af fyrrum hjónabandi Jóns.
Það er eiginlega allt frábært við þessa mynd. Persónurnar eru stórskemmtilegar. Ólafía Hrönn er frábær sem mamma stelpunnar og sömuleiðis Jóhann Sigurðarson sem pabbinn. Hilmir Snær sannar síðan snilli sína sem einn fremsti leikari landsins. Húmorinn er alveg magnaður og fær mann til að líða vel, allir í salnum voru ánægðir með myndina. Það eru svo mörg grátbrosleg atriði og mér finnst Ólafur Darri eiga senur myndarinnar þegar hann er í skóveseninu sínu, mætir síðan seint í brúðkaupið í íþróttaskóm og spilar djassaðan brúðkaupsvals alltof hratt. Frábært atriði!Umhverfið er líka ótrúlega flott og það er varla sá maður til sem ekki heillast af sumarnóttinni í Flatey held ég. Voila!
Mér fannst endirinn soldið sorglegur samt, þegar það er sýnt að hjónabandið er nákvæmlega eins og það fyrra og Jón er búinn að missa áhugann. Kannski var leikritið harmsaga, ég veit það ekki, en mér finnst að það hefðu alveg allir mátt enda glaðir og lifa hamingjusamir til æviloka.
Það er ekkert point í því að skella trailernum með því allir hafa séð þessa mynd. Allt í allt er þetta með betri íslenskum myndum sem ég hef séð. Það toppar samt ekkert húmorinn í Nóa Albínóa!
No Country for Old Men
Ýmsir SPOILER-ar hér og þar.
Mynd af sömu stærðargráðu og There Will be Blood. Hún hlaut fern óskarsverðlaun í ár, m.a. sem besta mynd og Coen bræður fengu óskarinn fyrir leikstjórn. Myndin er með 8,5 á imdb líkt og TWBB en munurinn á þeim er mikill. Ég fór með svipaðar væntingar á þær báðar en No Country for Old Men reyndist mun betri.
Myndin gerist í Texas í Bandaríkjunum fyrir nokkrum áratugum. Llewelyn Moss, venjulegur sveitadurgur, rambar einn daginn á stað þar sem fíkniefnaviðskipti enduðu illa og það eina sem er eftir eru lík og 2 milljónir dollara. Hann ákveður að hirða peninginn en það dregur dilk á eftir sér. Geðsjúkur fjöldamorðingi, Chigurh, er sendur á eftir honum og síðan hefst svaðalegur eltingarleikur þar sem Moss reynir að hrista morðingjann af sér. Inn í þetta fléttast rannsókn lögreglunnar á málinu.
Þessi mynd er alveg hreint út sagt mögnuð og eins svalasta mynd sem ég hef séð. Josh Brolin sem leikur Moss og Javier Bardem sem leikur geðsjúka morðingjann leika þetta ótrúlega vel. Það er eins og Bardem sé fæddur raðmorðingji, en sem betur fer varð hann leikari. Vopnið sem hann notar, einhverskonar ofur-loftbyssa með súrefniskút notuð til að slátra kúm er held ég svalasta vopn sem ég hef séð, þótt það sé í raun ekkert mjög hagkvæmt vopn. Mörg atriðin eru líka geðveikt svöl og má nefna atriðið þar sem Chigurh ræðir við kaupmann hvort hann eigi að drepa hann eða ekki og lætur hann kasta pening upp á það.
Fyrir hlé fannst mér myndin geðveik snilld og var að farast úr spennu. Chigurh var alltaf á hælunum á Moss og í hléi minnir mig beið Moss á rúminu eftir að Chigurh myndi brjótast inn í hótelherbergið sitt. Eftir hlé fannst mér myndin verða soldið flóknari og stemmingin datt aðeins niður. Endirinn var síðan mjög skrýtinn og óvæntur. Ég held að hann sé soldið opinn og það er hægt að túlka hann eins og maður vill. Maður veit í raun ekkert hvar peningarnir enduðu. Venjulega enda myndir á einhverri uppljóstrun eða einhverju álíka, en NCFOM endaði bara allt í einu. Annað atriði sem myndi ekki gerast í "venjulegum myndum"er þegar Moss er drepinn, því þangað til hafði hann verið aðalpersóna myndarinnar og survivor-inn sem ekkert gat drepið. Eftir það tók Tommy Lee Jones við sem lék lögguna Ed Tom Bell. Eftir myndina var síðan mjög gaman að ræða túlkanir manna á myndinni og ég fattaði t.d. ekki alveg tengsl allra, það þurfti soldið að hugsa til að fatta þau. Ég fattaði líka ekki point-ið með bílslysinu sem Chigurh lendir í í endinn. Það kom einhvernveginn upp úr þurru og tengdist sögunni ekki neitt. Var það til að sýna fram á að lífið er bara "flip of coin", þú veist aldrei hvað gerist.
Ég var soldið vonsvikinn þegar myndin endaði, uppáhaldskarakterinn dauður og enginn twistaður endir. Eftir á var þetta samt alveg mögnuð mynd sem allir verða að sjá. Öll kvikmyndataka, leikur, hljóð og umhverfi er frábært. Ég verð eiginlega að sjá myndina aftur til að skilja hana betur.
Princess Mononoke
Eftir fyrirlesturinn okkar um anime ákvað ég að horfa á myndina Princess Mononoke, sem Purkhús lýsti svo vel. Í raun hefði ég átt að horfa á hana fyrir fyrirlesturinn en það gafst enginn tími í það. Þetta er held ég svona næst-þekktasta japanska anime myndin á eftir Spirited Away. Hún er með svipaðan orðstý og SA og margverðlaunuð, með 8,3 á imdb í 119. sæti á topplistanum fræga. Goðsögnin Hayao Miyazaki gerði hana í fyrirtæki sínu Studio Ghibli. Studio Ghibli sérhæfir sig í anime og er nokkuð þekkt um allan heim fyrir myndir sínar, en allflestar frægustu anime myndirnar koma þaðan og eru einmitt eftir Hayao Miyazaki, og má nefna myndirnar Howl´s Moving Castle, My Friend Totoro og Grave of the Fireflies.
Myndin fjallar um prinsinn Ashitaka sem verður fyrir bölvun þegar hann bjargar þorpinu sínu frá guðlegum villigelti í álögum. Ashitaka neyðist til að ferðast til skógar í vestri til að hitta Dádýrsguðinn, helgasta guð skógarins (sem sést á myndinni hér til hliðar). Hann blandast inn í átök sem geisa milli manna og dýra í skóginum og á í erfiðleikum að ákveða með hverjum hann stendur. Ashitaka kynnist líka Mononoke, stelpu sem er alin upp af úlfum og berst með þeim gegn mönnunum. Dýrin í myndinni eru goðsagnakennd og hafa ákveðna leiðtoga sem eru guðir. Í myndinni er deilt á mannfólkið og hvernig við erum að fara með heiminn. Tré og dýr eru drepin miskunarlaust til að græða meiri pening og atvinnu.
Þetta er stórkostleg mynd sem sogar mann inn í ótrúlegan ævintýraheim. Umhverfið er ótrúlega fallegt og það er ekki hægt annað en að vera hrifinn af myndinni. Eins og Purkhús sagði þá var gífurleg vinna lögð í myndina og allt mjög vandað. Mér finnst tónlistin mjög flott, líkt og í Spirited Away og download-aði soundtrackinu úr þeim. Hérna má heyra eitt lagið úr myndinni:
Nú verð ég bara að grafa upp fleiri anime myndir til að horfa á.
Spirited Away
Spirited Away er líklega þekktasta anime mynd sem hefur verið gerð. Hún kom út árið 2001 og er í 58. sæti á topplista imdb með 8,5 í einkunn, sem er alveg magnaður árangur í ljósi þess að þetta er anime mynd. Myndin er gerð af Hayao Miyazaki en hann er þekktasi (og besti) anime leikstjóri í heimi. Spirited Away er vinsælasta mynd sem nokkurn tíman hefur verið sýnd í Japan og vann t.d. Óskarinn árið 2003 sem besta teiknimyndin og var fyrst anime mynda til að gera það.
Söguþráðurinn er á þá leið að stelpan Chihiro lendir á svæði sem er einhverskonar hvíldarstaður guða og anda sem koma þangað til að skemmta sér og slappa af. Foreldrar stelpunnar látta gabba sig og breytast í svín og Chihiro lendir í ótal hremmingum við að reyna að breyta þeim aftur og fara frá þessum stað. Það er soldið erfitt að lýsa þessu, þetta hljómar kannski kjánalega en þetta er samt geðveik mynd.
Chihiro kynnist ýmsum furðuverum sem eru flestar yfirnáttúrulegar og stórskrýtnar. Margar verurnar eru japanskar goðsagnaverur en sumar greinilega bara einhver fantasía. Flottasti karakterinn er án efa No Face sem er svört vera með hvíta grímu sem hegðar sér mjög furðulega og nærist einhvernveginn á tilfinningum annarra.
Það er allt mjög dularfullt einhvernveginn í myndinni og í rauninni áttar maður sig ekki alveg á öllu sem er að gerast, rétt eins og litla stelpan í myndinni. Það er ýmislegt sem er minnst á sem er ekkert útskýrt nógu vel og alla persónur fyrir utan stelpuna vita miklu meira en maður sjálfur. Maður fær það á tilfinninguna að þetta sé ekkert útpælt heldur bara troðið öllum hugdettum og fantasíum inn í þessa einu mynd. Það er samt ýmis boðskapur og tákn í myndinni og í raun er þetta þroskasaga Chihiro, en hún kemur mjög breytt útúr þessari lífsreynslu.
Myndin er mjög vel teiknuð og umhverfið er mjög litríkt og flott. Tónlistin passar mjög vel við myndina og er gerð af Joe Hisaishi, en hann hefur einmitt gert tónlistina við allflestar myndirnar hjá Hayao Miyazaki. Hér er upphafslagið í myndinni sem mér finnst alveg magnað.
Ef þið hafið ekki séð hana þá mæli ég eindregið með henni og þótt sumir séu skeptískir á anime myndir er þetta frábær mynd til að koma mönnum inn í þennan ótrúlega flokk mynda.
þriðjudagur, 15. apríl 2008
There Will be Blood
Ein stærsta mynd ársins. Henni var leikstýrt af Paul Thomas Anderson sem er nú frekar lítið þekktur, ég kannast ekkert við hann. Myndin er með 8,5 í einkunn á imdb, sem er frábær árangur, og vann tvö óskarsverðlaun nú í ár fyrir besta karlkyns aðalleikara og bestu myndatöku. Ég fór á myndina með miklar væntingar og var búinn að heyra að hún væri geðveik og jafnvel besta mynd ársins. Síðan kom annað á daginn.
Myndin fylgir lífshlaupi Daniel Plainview, olíuauðjöfri í Bandaríkjunum í upphafi 19. aldar. Í byrjun myndarinnar er hann óbreyttur, fátækur maður og gengur ekkert svo vel í lífinu. Fyrir heppni finnur hann olíu og eftir það er ekki aftur snúið. Auður hans vex og vex og hann verður um leið illskeyttari og gráðugri. Plainview "ættleiðir ungabarn snemma í þessu ferli og samband þeirra þróast síðan illa samfara vaxandi græðgi Plainviews. Sagan fjallar í raun um mann sem upplifir ameríska drauminn en klúðrar honum.Myndin er tveir og hálfur tími og mjög langdregin. Eftir að hafa horft á alla myndina líður manni eins og ekkert hafi gerst í henni. Sagan mallaði bara áfram og endaði síðan. Endirinn átti að vera eitthvað dramatískur en mér fannst hann soldið tómlegur og ekki vera góður endir. Sagan þróaðist hægt og mér fannst aldrei neitt merkilegt gerast. Ég var alltaf að bíða eftir einhverju stóru, bombunni, en hún sprakk aldrei. Mér leið stundum eins og sagan væri bara ýmsir bútar úr lífi Plainviews sem var hent saman í tilviljanakenndan graut.
SPOILER
Hálftími að myndinni fór t.d. í gervibróðir Plainview sem hann drap síðan. Síðan var það bara búið. Sagan hélt áfram eins og ekkert hefði gerst og þetta tengdist myndinni ekkert á beinan hátt, bara saga inní sögu. Eitt sem ég verð líka að minnast á, það var fáránlega ruglandi að Paul Dano (unglingurinn úr Little Miss Sunshine) lék bæði Paul Sunday og prestinn Eli Sunday. Ég hélt alltaf að þetta hefði verið sami gaurinn (enda var þetta sami gaurinn).
SPOILER BÚINN
Ég var ekki að fíla tónlistina í myndinni, þótt margir séu á öðru máli. Tónlistin er eitthvað fiðluískur sem ætti frekar heima í gamalli hryllingsmynd. Mér fannst það of hátt stillt á köflum og ekki passa hreinlega inn í myndina. Hér er smá hljóðbrot:
Hver er hrifinn af þessu? Hvaða erindi á þetta ískur í myndina?
Myndin er einum of listfengin eitthvað fyrir minn smekk, tónlistin arty og mikil áhersla á flotta myndatöku. Söguþráðurinn líður fyrir þetta.
Allir sem elskuðu þessa mynd benda aðallega á tónlistina og myndatökuna og sumir benda líka á boðskapinn á bakvið, græðgi. Tilfinningaveran Bjarki Ómarsson orðaði þetta einhvernveginn svona:,, Já, þú veist, græðgi maður, það eru allir gráðugir, heimurinn er gráðugur! Það er svo mikil lífsspeki í myndinni að ég tárast þegar ég hugsa um hana". Það var rétt svo að maður héldi athygli alla myndina, hvað þá að hún næði að vekja (ekki vekja upp, maður vekur bara upp drauga skv. KJ) einhverjar tilfinningar. Hún fékk mig ekkert til að hugsa um hvað græðgi getur gert manni. Mér fannst hún ekki hafa tilætluð áhrif. En hver hefur sína skoðun.Það má samt ekki skilja þetta þannig að þetta sé alslæm mynd. Hún stóðst bara ekki gífurlegar væntingar. Það er ýmislegt jákvætt og gott við hana. Leikararnir eru mjög góðir og Daniel Day Lewis fer á kostum (minnir samt soldið á karakterinn sinn úr Gangs of new York). Myndatakan er líka ansi flott. En það eru of margir gallar við myndina til að hægt sé að kalla hana meistaraverk.
mánudagur, 14. apríl 2008
Hold Up Down
Myndin fjallar (í upphafi að minnsta kosti) um tvo gaura sem ræna banka í jólasveinabúningum. Þeir eru eltir af tveim löggum og síðan blandast skrýtinn hippi í eltingarleikinn. Hippinn frýs í kælingartrukki og bílstjórinn heldur að frosni hippinn sé Jesús Kristur, sjálfur frelsarinn. Síðan hitta þessir menn enn fleiri skrýtna karaktera. Allar persónur mætast síðan af og til eða tengjast einhvernveginn, sem er frekar mikil snilld. Síðan bætast einhverjir zombie-ar og draugar við í endinn og allt fer í rugl.
Húmorinn í myndinni er frekar mikil snilld, en eins og áður sagði dettur hann í einhverja vitleysu í endinn. Þá eru einhver kung-fu atriði sem passa ekki alveg í myndina. Hvað voru höfundarnir að hugsa? Ég hef nú ekkert verið mikið í japönskum grínmyndum, veit ekki hvort ég hef séð asíska grínmynd áður, en ég er að fíla húmorinn. Húmorinn er einhvernveginn allt öðruvísi en á Vesturlöndum, ég veit samt ekki alveg hvernig ég á að lýsa honum. Fyndnasta atriði myndarinnar er án efa þegar ræningjarnir eru í skýrslutöku og annar þeirra fer að tala um fjarstýrðar módellestir við skýrslustelpuna sem hefur líka geðveikan áhuga á fjarstýrðum módellestum og síðan endar það í flótta þeirra saman.
Aðalleikararnir eru víst allir meðlimir í einhverju japönsku boyband-i sem kallast V6 sem er frekar kjánalegt. Þeir eru held ég allir á plakatinu hérna fyrir ofan. Áhugasamir geta kíkt á myndband hérna af þeim að flytja smellinn sinn Music for the People. Ég man ekkert öll andlitin í myndinni (þeir eru allir eins) svo ég veit ekkert hver lék hvern. Grípandi lag, sérstaklega viðlagið, samt óskiljanlegt afhverju 3 þeirra eru í míni-pilsum?