sunnudagur, 13. apríl 2008

Happy End

Eftir gott jólafrí er kominn tími til að setjast við lyklaborðið. Nú þýðir ekkert annað en helling af bloggum á dag til að bjarga sér. Ég þarf kraftaverk.

Þetta er líklega besta myndin sem ég hef séð í kvikmyndagerð í vetur, enda eru flestar þeirra frekar leiðinlegar. Kannski er það bara andrúmsloftið í stofunni en ég sofna oftast þegar ég horfi á myndir í kvikmyndagerð. Síðan er ekkert góð stemming að horfa á mynd um hábjartan dag klukkan fjögur eftir langan skóladag. En þetta er eina leiðin.

Ég bjóst ekki við miklu af einhverri mynd sem gerðist afturbák og þegar það kom í ljós að hún var frá 1966 þá urðu væntingarnar að engu. Þegar myndin byrjaði komst maður að því að hún gerist bókstaflega öll afturbák. Öll myndin er spiluð afturábak og hefst þegar aðalpersónan er drepin, en það er í raun upphaf hennar. Það flottasta við myndina er síðan það að aðalpersónan skynjar lífið afturábak og lýsir því af mikilli snilld. Hann fæðist þegar hann deyr og verður svo yngri og yngri og ævinni lýkur þegar hann minnkar í ungabarn og deyr í raun þegar hann fæðist. Ástæða þess að hann var drepinn er sú að hann myrti konuna sína og bútaði hana í sundur, og áhorfandinn fattar þetta afturábak. Í myndinni setur hann hana aftur saman og hún lifnar við. Mesta snilldin er síðan þegar fólk borðar og framleiðir mat úr munninum á sér og setur á disk. Myndin myndi virka ef hún væri spiluð réttsælis en þá væri söguþráðurinn reyndar ekkert merkilegur.
Það hlýtur samt að þurfa óhemju mikla vinnu við að gera svona mynd og útpæla hana alveg. Hvert atriði þarf að hugsa afturábak í handritinu og síðan þarf þetta að koma vel út spilað afturábak. Mér finnst skrýtið að fleiri hafi ekki notað þessa hugmynd og gert nútímamynd sem gerist afturábak. Reyndar gerist Memento "afturábak", en eftir að hafa séð þessa mynd missir það gildi sitt. Hafa kannski fleiri svona myndir verið gerðar eða myndir sem vinna enn frekar með þessa hugmynd á einhvern hátt?

Eftir myndina leið mér frekar furðulega og þegar ég beið á Lækjartorgi eftir strætó og hlustaði á samtal tveggja gaura fannst mér eins og samtalið væri afturábak, í öfugu orsakasambandi. Mögnuð mynd!

1 ummæli:

Siggi Palli sagði...

Fín færsla. 5 stig.
Eina sem ég man eftir að hafi verið gert með svipuðum hætti var einn þáttur af hinum ágætu Red Dwarf...