þriðjudagur, 15. apríl 2008

There Will be Blood


Ein stærsta mynd ársins. Henni var leikstýrt af Paul Thomas Anderson sem er nú frekar lítið þekktur, ég kannast ekkert við hann. Myndin er með 8,5 í einkunn á imdb, sem er frábær árangur, og vann tvö óskarsverðlaun nú í ár fyrir besta karlkyns aðalleikara og bestu myndatöku. Ég fór á myndina með miklar væntingar og var búinn að heyra að hún væri geðveik og jafnvel besta mynd ársins. Síðan kom annað á daginn.

Myndin fylgir lífshlaupi Daniel Plainview, olíuauðjöfri í Bandaríkjunum í upphafi 19. aldar. Í byrjun myndarinnar er hann óbreyttur, fátækur maður og gengur ekkert svo vel í lífinu. Fyrir heppni finnur hann olíu og eftir það er ekki aftur snúið. Auður hans vex og vex og hann verður um leið illskeyttari og gráðugri. Plainview "ættleiðir ungabarn snemma í þessu ferli og samband þeirra þróast síðan illa samfara vaxandi græðgi Plainviews. Sagan fjallar í raun um mann sem upplifir ameríska drauminn en klúðrar honum.Myndin er tveir og hálfur tími og mjög langdregin. Eftir að hafa horft á alla myndina líður manni eins og ekkert hafi gerst í henni. Sagan mallaði bara áfram og endaði síðan. Endirinn átti að vera eitthvað dramatískur en mér fannst hann soldið tómlegur og ekki vera góður endir. Sagan þróaðist hægt og mér fannst aldrei neitt merkilegt gerast. Ég var alltaf að bíða eftir einhverju stóru, bombunni, en hún sprakk aldrei. Mér leið stundum eins og sagan væri bara ýmsir bútar úr lífi Plainviews sem var hent saman í tilviljanakenndan graut.

SPOILER
Hálftími að myndinni fór t.d. í gervibróðir Plainview sem hann drap síðan. Síðan var það bara búið. Sagan hélt áfram eins og ekkert hefði gerst og þetta tengdist myndinni ekkert á beinan hátt, bara saga inní sögu. Eitt sem ég verð líka að minnast á, það var fáránlega ruglandi að Paul Dano (unglingurinn úr Little Miss Sunshine) lék bæði Paul Sunday og prestinn Eli Sunday. Ég hélt alltaf að þetta hefði verið sami gaurinn (enda var þetta sami gaurinn).
SPOILER BÚINN

Ég var ekki að fíla tónlistina í myndinni, þótt margir séu á öðru máli. Tónlistin er eitthvað fiðluískur sem ætti frekar heima í gamalli hryllingsmynd. Mér fannst það of hátt stillt á köflum og ekki passa hreinlega inn í myndina. Hér er smá hljóðbrot:


Hver er hrifinn af þessu? Hvaða erindi á þetta ískur í myndina?
Myndin er einum of listfengin eitthvað fyrir minn smekk, tónlistin arty og mikil áhersla á flotta myndatöku. Söguþráðurinn líður fyrir þetta.

Allir sem elskuðu þessa mynd benda aðallega á tónlistina og myndatökuna og sumir benda líka á boðskapinn á bakvið, græðgi. Tilfinningaveran Bjarki Ómarsson orðaði þetta einhvernveginn svona:,, Já, þú veist, græðgi maður, það eru allir gráðugir, heimurinn er gráðugur! Það er svo mikil lífsspeki í myndinni að ég tárast þegar ég hugsa um hana". Það var rétt svo að maður héldi athygli alla myndina, hvað þá að hún næði að vekja (ekki vekja upp, maður vekur bara upp drauga skv. KJ) einhverjar tilfinningar. Hún fékk mig ekkert til að hugsa um hvað græðgi getur gert manni. Mér fannst hún ekki hafa tilætluð áhrif. En hver hefur sína skoðun.Það má samt ekki skilja þetta þannig að þetta sé alslæm mynd. Hún stóðst bara ekki gífurlegar væntingar. Það er ýmislegt jákvætt og gott við hana. Leikararnir eru mjög góðir og Daniel Day Lewis fer á kostum (minnir samt soldið á karakterinn sinn úr Gangs of new York). Myndatakan er líka ansi flott. En það eru of margir gallar við myndina til að hægt sé að kalla hana meistaraverk.

1 ummæli:

Siggi Palli sagði...

Fín færsla.
Ég er eiginlega sammála þér með tónlistina.
Mér fannst frammistaða Daniel Day Lewis fölna í samanburði við frammistöðu hans í Gangs of New York, þar fannst mér hann virkilega góður.
Annars fannst mér þetta fín mynd, en ég skil hvað þú átt við. Þetta er karakter-stúdia og eiginlega allt sem við sjáum er hluti af því að byggja upp þennan Plainview karakter.
Annars fannst mér Plainview alls ekki eins mikið illmenni og myndin vill meina. Hann er vissulega fantur sem nýtir sér veikleika í fólkinu í kringum sig, en það er Eli Sunday líka. Þess vegna hafði ég mjög gaman af senunum þeirra á milli, þar sem þeir níðast hvor á öðrum allt eftir því hver hefur yfirhöndina.
7 stig.