laugardagur, 8. desember 2007

Gamlar myndir


Ég læt 26 færslur nægja. Ef ég myndi bæta inn fjórum færslum núna yrðu þær líklega frekar stuttar og lélegar, svo ég læt það eiga sig. Þessi færsla verður samt líklega frekar stutt og leiðinleg en ég læt hana samt flakka.
Það hefur verið soldið erfitt að halda þessu bloggi við og skrifa reglulega, en þetta verður vonandi taktfastara eftir jól.
Þessar gömlu klassísku myndir sem við höfum verið að horfa í vetur hafa verið mjög misjafnar. Sumar hafa ekki elst vel að mínu mati og eru grútleiðinlegar í dag en aðrar voru argasta snilld. . Myndir í gamla daga voru greinilega miklu langdregnari en tíðkast nú. Ég hef sérstaklega kynnst því í myndum Kurosawa þar sum atriðin eru óskiljanlega löng. Sumar myndirnar eru þó langdregnar en samt snilld, Seven Samurai er gott dæmi. Ég væri alveg til í að sjá einhverja nýlega mynd eftir jól, hafa hana allavega í lit...

Lísa í Undralandi

Nú er maður orðinn örvæntingafullur um að ná kvótanum svo ég skelli hérna inn færslu um Lísu í Undralandi. Ég sá hana fyrir nokkrum vikum með litlu frænku minni. Myndin var í frekar miklu uppáhaldi þegar ég var mjög lítill, enda tímalaus klassík hérna á ferð. Undraland er heillandi heimur (land) fullur af furðuverum og má nefna Hjartadrottninguna, dularfulla köttinn (Cheshire Cat), hvítu kanínuna, hurðarhúninn og reykjandi lirfuna sem er í miklu uppáhaldi hjá Davíði Þorsteins. Fyrir utan þessar persónur eru óteljandi aðrar sem hefta för Lísu í gegnum Undraland. Þessi ferð er í rauninni eintóm steypa og útúrsnúningur. Skelli samtali úr myndinni hér fyrir neðan sem er lýsandi fyrir ferðina (á ensku, tekið beint af IMDB):

Cheshire Cat: Oh, by the way, if you'd really like to know, he went that way.
Alice: Who did?
Cheshire Cat: The White Rabbit.
Alice: He did?
Cheshire Cat: He did what?
Alice: Went that way.
Cheshire Cat: Who did?
Alice: The White Rabbit.
Cheshire Cat: What rabbit?
Alice: But didn't you just say - I mean - Oh, dear.
Cheshire Cat: Can you stand on your head?
Alice: Oh!

fimmtudagur, 6. desember 2007

La régle de jeu (The Rules of the Game)



Jæja, þá er ég búinn að horfa á allar skyldumyndirnar og blogga um þær.
Ég hef nú oft horft á margar ágætis franskar myndir í sunnudagssjónvarpinu síðustu ár og er almennt hrifinn af frönskum myndum. "La régle de jeu" olli mér samt frekar miklum vonbrigðum. Þar sem myndin er titluð sem besta erlenda mynd allra tíma skv. einhverjum lista þá bjóst ég við þrusumynd. Myndin var síðan ekkert svo slæm, ágæt bara, en ég skil ekki hvað gerir hana eitthvað meistaraverk. Að þetta sé besta erlenda mynd sem gerð hefur verið er kjaftæði.Ég hef séð margar betri.
Þetta er frekar dramatísk mynd segir í rauninni frá ástum fransks fólks af misjöfnu sauðahúsi. Á endanum fer allt í bál og brand, málin flækjast, ótrúlegar ástarflækjur myndast, leyndarmál koma í ljós og maður er myrtur.
Frekar típískur söguþráður. Sumir segja að maður verði að horfa á myndina aftur en ég nenni því ekki.

Myndin fær 2,5/5 stjörnum, sæmileg mynd.

miðvikudagur, 5. desember 2007

Stuttmyndargerð


Betra er seint en aldrei...

Við vorum frekar rólegir fyrir myndina og það endaði auðvitað í því að við leituðum hugmynda að söguþræði á síðustu stundu. Söguþráðurinn verður að vera flottur. Nokkrar hugmyndir voru komnar og loks enduðum við á að gera mynd um innilokunarkennd. Síðan spunnum við eiginlega myndina milli sena, enda tók fáránlega langan tíma að gera þessa 5 mín. mynd. Við vorum úrvinda þegar fór að kvölda og ákváðum að enda myndina og segja þetta gott. Það hefði verið hægt að gera frábæra mynd út frá þessari hugmynd en við hvorki tíma né tæki í það. Myndin var samt fín.
Lærðum ýmislegt við þetta, aðallega að það verður að skipuleggja handrit áður myndin er tekin upp og síðan verður að heyrast hvað persónurnar eru að segja. Einhverjir titluðu mig hljóðmann en ég vísa þeim ásökunum á bug og skelli skuldinni á hina hópfélagana. Ég stóð mig vel.

þriðjudagur, 4. desember 2007

Yojimbo

Góður en langdreginn "vestri". Nauðsynlegt að þamba Magic til að komast í gegnum þessar Kurosawa myndir. Eins og oftast er myndin góð, en alltof langdregin fyrir marga nútímaáhorfendur.
Myndin segir frá einsömum samúræja á flakki sem kemur í lítinn bæ þar sem tvö gengi berjast um völdin, þorpsbúum til mikils ama. Samúræjinn leikur síðan tveimum skjöldum og styður klíkurnar til skiptis, allt eftir því hvað honum hentar, og allt er þetta partur af plani hans til að koma á friði í þorpinu. Kurosawa notar veðrið listavel og tónlistin spilar einnig stóran part í myndinni, spennustefið er snilld.

Fróðleiksmolar: Yojimbo þýðri lífvörður sem vísar til hlutverks samúræjans hjá bossunum í klíkunum. Samúræjinn kallar sig Kuwabatake Sanjuro sem þýðir Berjaakur Þrjátíuáragamall þegar bossarnir spyrja hann til nafns. Clint Eastwood notaði svipaða hugmynd þegar hann lék manninn án nafns, t.d. í endurgerð myndarinnar Yojimbo, A Fistfull of Dollars.

Myndin fær 3,5 af 5 stjörnum mögulegum.


Bloggmúrinn

Sé tekið meðaltal af fjölda færslna hjá nemendum í kvikmyndagerð kemur ljós að meðalmaðurinn er kominn með tæplega 15 blogg yfir misserið (14,87) þegar þessi færsla er skrifuð (gat ekki opnað síðuna hans Andrésar). Nú eru fjórir dagar fram að skuldadögum og menn aðeins hálfnaðir með kvótann sem var gefinn. Það er soldið vafamál hvað telst færsla og hvað telst ekki færsla. Menn skrifa mismikið og um mismargar myndir í hverri færslu. Er kannski 30 færslna múrinn of hár fyrir meðalmanninn og enginn nema fuglinn fljúgandi og Bóbó komast yfir hann? Ef til vill hefði verið viturlegt að skrifa færslur jafnt og þétt yfir misserið, þá hefðu þetta aðeins verið um 2 færslur á viku. En það gerir manni gott að fresta hlutunum fram á lokadaginn. Ætli menn bombi ekki inn 15 færslum á laugardaginn...
Telst þetta færsla?

Topp tíu (Annar hluti)


Nói albínói

Besta íslenska kvikmyndin að mínu mati. Hún gerist í einsemdinni áVestfjörðum þar sem furðulegi undraunglingurinn Nói býr. Honum líkar ekki lífið þarna og dreymir um að komast annað. Myndin er með frábærum söguþráð en mér finnst húmorinn aðaleinkenni hennar, þetta er fáránlega fyndin mynd.

Shawshank Redemption

Þetta er fáránlega góð mynd. Ég hef aldrei hitt mann sem finnst hún ekki snilld. Söguþráðurinn er ein mesta snilld kvikmyndasögunnar, enda fenginn úr bók eftir meistarann Stephen King. Ófáar bækur King hafa verið færðar á hvíta tjaldið og má helst nefna The Green Mile sem er nálægt því að komast líka á topp tíu listann minn. Shawshank Redemption býr ekki bara yfir góðum söguþræði heldur er það myndin í heild sem gerir hana eina af bestu myndum allra tíma. Einhver veginn grunar mig að þegar myndin var gerð hafi ekki verið búist við að þetta yrði ein lofaðasta mynd í kvikmyndaheiminum. Þessi mynd er gerð fyrir áhorfendur.

Memento

Svona eiga myndir að vera. Ég gæti haft topp 10 listann minn með einungis myndum á við Memento, það er myndir með fáránlega góðu plotti, en ég ákvað að hafa listann sem fjölbreyttastan. Maður getur ekki hætt að hugsa um þessa mynd þegar maður hefur séð hana, enda verður maður að sjá hana oftar til að fá heildarmynd á hana. Plottið er eitt það besta (ef ekki besta) sem ég hef séð.

Ég fékk mig loksins til að horfa á 8½, var búinn að heyra skelfilegar sögur um hversu löng og leiðinleg hún er. Hún var síðan ekkert svo slæm (miðað við hversu margar lélegur myndir maður hefur séð). Reyndar var þetta mjög fáránleg mynd, þar sem ég var stundum alveg týndur. Ég held að þetta sé mynd sem Fellini gerði fyrir sjálfan sig og mér finnst hún einum of persónuleg, þ.e. listræn. Áhorfandinn fattar lítið hvað er að gerast en þetta er eitthvað sem leikstjórann langaði að gera.
Þessi mynd er öðruvísi en flestar myndir og er þar af leiðandi ein af perlum kvikmyndasögunnar. Það þýðir samt ekkert að myndin sé góð, bara byltingarkennd, flott eða eitthvað því um líkt.
Þetta var samt sæmileg skemmtun. Myndin á sín móment. Dagdraumar Guido voru oft ansi skondnir, og uppáhaldssenan hans Sigga Palla þar sem Guido er bossinn í kvennabúrinu er snilld.
Ég dottaði nú eitthvað yfir myndinni en hver gerir það ekki, hún er hrikalega langdregin á köflum. Eftir allt saman er hún kannski löng og leiðinleg. Tek orð mín í byrjun til baka. Leiðinleg mynd.

Gef henni samt 2/5 stjörnur fyrir að vera talin ein af bestu myndum allra tíma.

Ran


Ég var orðinn ansi þreyttur á langdregnum Kurosawa myndum eftir fyrirlesturinn um kappann en ákvað samt að horfa á Ran í sunnudagsbíói Sjónvarpsins. Það hafði líka áhrif að hún var í lit, ég var kominn með nóg af svart-hvítum myndum. Það kom síðan ekkert voðalega á óvart að myndin var langdregin (160 mín.). Þrátt fyrir þetta fannst mér myndin góð. Miðað við aðrar Kurosawa myndir sem ég hafði séð var þessi miklu nýlegri og þess vegna miklu flottari og nútímalegri. Bardagarnir voru magnaðir og minntu mig á tölvuleikinn Shogun (herkænskuleikur sem gerðist í Japan á svipuðum tíma og Ran á að gerast).
Sagan er líka mögnuð þótt Kurosawa eigi ekki heiðurinn af henni. Myndin er gerð eftir frægu leikriti Shakespeare, Lér Konungur, og mér finnst Kurosawa takast frábærlega að færa þessa ensku harmsögu yfir til Japan. Faðir og þrír synir hans berjast innbyrðis um völd á litlu svæði í Japan - Getur ekki endað með öðru en ósköpum.

Myndin fær 3,5 stjörnur af 5 mögulegum

Topp 10 (Fyrsti hluti)

Ótrúlegt vesen að gera þennan lista. Þetta eru nú ekkert endilega 10 bestu myndir sem ég hef séð, en með þeim betri. Sumar voru í uppáhaldi hjá mér þegar ég var yngri en aðrar sá ég fyrst nýlega. Það er líka fullt af myndum sem mig langar að sjá sem gætu komist inn á þennan lista. En látum þennan duga í bili.


Battle Royal

Í náinni framtíð þegar Survivor hefur farið úr böndunum eru raunveruleikaþættir komnir á næsta stig. Heill skólabekkur er valinn til að fara á eyðieyju og berjast þar til einn stendur uppi sem sigurvegari. Allir hinir deyja.
Hugmyndin á bak við þessa mynd er snilld. Nú í dag tröllríða raunveruleikaþættir heiminum og fyrir stuttu var tilkynnt um þátt þar sem krakkar í Bandaríkjunum taka þátt í einskonar Survivor. Hvað verður langt þar til að Battle Royal verður að veruleika?
Maður verður samt að vera í rétta fílingnum þegar maður horfir á þessa mynd, því hún gengur eiginlega bara útá hrottalega slátrun skólakrakka.


Lion King

Eins og mörgum finnst er þetta með sorglegri myndum sem ég hef séð. Sagan um Simba sem missir föður sinn ungur og þarf að takast á við lífið. Veit ekki hversu oft ég hef séð þessa mynd, en ég gleymi henni ekki í bráð. Besta teiknimynd allra tíma og langbesta mynd sem Disney hefur sent frá sér. Músíkin í þessari mynd er líka fáránlega góð.


The Great escape

Ég sá þessa mynd fyrst á pólsku þegar ég var lítill og skildi ekki neitt en samt fannst mér þetta geðveik mynd. Hópur manna í fangabúðum nasista vinna saman að því að gera hópflótta. Endirinn er síðan mjög dramatískur. Allt er þetta byggð á sönnum atburðum sem gerir myndina enn merkilegri. Steve McQueen fer á kostum en gerir reyndar fátt annað en að kasta bolta í vegg í einangrun. Mæli með þessari.

mánudagur, 3. desember 2007

Walk the Line


Ég horfði á myndina í fartölvu hjá félaga mínum í flugi um helgina en átti um korter eftir þegar batteríið kláraðist. Með fyrirvara um að endirinn sé ekki algjört krapp finnst mér þetta þrusugóð mynd. Myndin er byggð á ævi Johnny Cash, sem er frábær formúla fyrir kvikmynd; dauði, ástir, eiturlyfjanotkun o.fl. Einnig er þetta klassík saga um stjörnu sem hrapar á botninn og verður svo að hugsa sinn gang. Joaquin Phoenix er fáránlega góður sem Johnny Cash og Reese Witherspoon jafnvel betri sem June Carter, ástkona hans. Heimildir mínar segja að þau hafi sungið lögin í alvöru í myndinni sem er frekart töff, Phoenix syngur ansi líkt Cash. Ég verð að sjá endinn á myndinni.

Hún fær 4/5 stjörnum mögulegum.

Rashomon


Ég komst ekki á síðustu óvissusýningu og var því feginn að Siggi Palli sýndi Rashomon, því ég var búinn að sjá hana. Ég var sá eini af Kurosawa-hópnum sem horfði á hana fyrir fyrirlesturinn, enda mesti metnaðurinn í mér... Í rauninni var það eina sem fékk mig til að horfa á hana það að hún er frekar stutt, og ég var orðinn ansi þreyttur á þessum langdregnu Kurosawa myndum. Svo kom í ljós að mörg atriðin eru alveg jafn langdregin (gott dæmi þegar skógarhöggsmaðurinn arkar í gegnum skóginn fáránlega lengi), myndin er bara styttri. Söguþráðurinn er byltingarkennd snilld, en myndin sjálf er engin snilld.

Myndin fær 2,5 stjörnur af 5 mögulegum.

sunnudagur, 25. nóvember 2007

Det sjunde inseglet


Eftir fyrirlesturinn um Bergman langaði mig einmitt að sjá Sjöunda innsiglið. Crád-plíserinn Siggi Palli sýndi hana í fyrstu óvissusýningunni og sá til þess að ósk mín rættist. Myndin stóðst allar mínar væntingar. Þetta er súrrealísk gamanmynd um lífið, dauðan og trúna. Riddari tekst á við Dauðann um líf sitt í skák. Dauðinn er persónugerður sem snilldar gaur í svörtum kufli með fínan húmor. Riddarinn Antonius Block, aðalpersónan, er líka skemmtilegur karakter sem leitar að tilgangi lífsins. Skákin er spiluð í köflum og á milli þess að spila skákina ferðast Block og hittir ýmsa förunauta. Hann lærir ýmislegt á þessu ferðalagi og nær að lokum takmarki sínu.
(Sá á Rotten-tomatoes að bæði Block og Dauðinn nota hrókeringu í skákinni þótt hún hafi ekki komið í skák fyrr en á 16.öld. Bergman hefur greinilega ekki kynnt sér leikinn til fullnustu).
-
Myndin fær 3,5/5 stjörnum.

Heitt í kolunum (Some Like it Hot)

Tveir gaurar klæða sig upp sem konur á flótta undan einhverjum mafíósum. Síðan lenda þeir í pínlegum uppákomum og bölvuðu basli (t.d. að karlmaður verður skotinn í öðrum þeirra). Hljómar ekkert spennandi en er það samt, kannski aðallega út af því að myndin er frá 1959. Það er heill hellingur af "nýlegum" myndum sem ganga út á eitthvað svipað og flestar eru þær ömurlegar (t.d. She´s the Man, Juwanna Mann, Big Momma´s House o.fl.). Þetta er ein af fyrstu myndunum sem fjalla um klæðskiptinga og eitthvað því um líkt og er þess vegna ein af perlum kvikmyndanna. Á sínum tíma hefur hún líklega slegið í geng. Myndin hefur elst nokkuð vel en samt finnst mér þetta ekkert sjúklega góð mynd, samt betri en flestir eftirmenn sínir. Mér finnst Jack Lemmon snillingur, einn besti gamanleikari sinnar tíðar.

Myndin fær 3/5 stjörnur.

miðvikudagur, 21. nóvember 2007

Das Cabinet des Dr. Caligari


Furðufuglinn dr. Caligari sýnir "spámanninn" sinn, Cesare, sem á að geta spáð í framtíðina. Sýningum þeirra fylgja morð og þorpsbúa fer að gruna ýmislegt. Endirinn er síðan eitthvað svaka twist sem ég fattaði ekki. Kannski á það að vera þannig.
Þetta er furðuleg hryllingsmynd. Skil nú ekki bloggara á imdb sem segja myndina meistarastykki sem hafi breytt lífi þeirra. Þetta er ágæt mynd en mér finnst hún ekkert hafa elst svo vel, þetta er frekar dauf mynd nú í dag. Árið 1920 hefur hún eflaust verið mjög ógurleg og framandi. Hún má samt eiga það að vera furðuleg, umhverfið allt bjagað og persónurnar stórskrýtnar.

Myndin fær 2,5/5 stjörnum.

þriðjudagur, 20. nóvember 2007

American Gangster


Sá myndina í bíó um helgina og fannst hún drullugóð. Þetta er einhvers konar mafíósa mynd sem gerist í Bandaríkjunum á tíma Víetnam stríðsins. Sniðugur blökkumaður verður stórlax í fíkniefnaheiminum í New York á stuttum tíma og það eru ekki allir sáttir með það. Sikileyingar hafa aldrei heyrt aðra eins þvælu, að einhver negri sé að skjóta þeim ref fyrir rass.

Þetta byggir allt á sönnum atburðum, en maður veit sosem aldrei hversu mikið af myndum sem eru byggðar á sönnum atburðum er satt. Stórleikararnir Denzel Washington og Russel Crowe leika í myndinni og Denzel er ótrúlega trúverðugur sem heróínkóngur og Guðfaðir Harlem. Russel leikur síðan heiðvirða löggu sem vill "busta" Denzel. Veit ekki hvort þessi fullkomna lögga sé sönn. Allt útlit myndarinnar er mjög flott og söguþráðurinn snilld, það eina sem hægt er að setja út á hana er lengdin, hún gerist mjög hægt. Samt var ég aldrei nálægt því að sofna eins og gerist við aðra hverja mynd sem ég horfi á. Mæli með að menn sjái þessa mynd.

Skelli 4/5 stjörnum á hana.

þriðjudagur, 16. október 2007

Notorious (Alfred Hitchcock)

Myndinni er leikstýrt af goðsögninni Alfred Hitchcock og ég verð að segja að hann er með betri leikstjórum síns tíma. Hann kann sko sannarlega að skapa spennu. Fáar myndir jafnast á við meistaraverkið Psycho og þegar ég var lítill var ég skíthræddur við fuglana í Birds. Samt finnst mér endirinn í Birds frekar asnalegur. Sömu sögu má segja um Notorious. Það vantar eitthvað ''twist'' eða drama í endinn, líkt og í Psycho. Þótt allt endi vel og nasistinn Alex fái makleg málagjöld er endirinn ekkert spes. Mér finnst góður endir í myndum lykilatriði. Það sem gerir Psycho að meistaraverki er endirinn. Í þokkabót vorkenndi ég aumingja Alex í endinn, hann var aldrei sýndur sem nógu mikið illmenni (fyrir utan að vera nastisti, sem er reyndar hryllilegt). Hitchcock hefði átt að láta hann fremja eitthvað voðaverk í myndinni til að sýna illsku hans.

Fyrir utan þetta er þetta samt nokkuð góð mynd. Cary Grant og Ingrid Bergman leika aðalpersónurnar vel og sambandið milli persóna þeirra gengum myndina er mjög sérstakt. Þau vita aldrei hvernig þau eiga að haga sér og eru alltaf að prófa hvort annað. Hitchcock tekst að skapa mikla spennu í gegnum myndina. Gef henni 3 og hálfa stjörnu af 5 mögulegum.

mánudagur, 15. október 2007

Sen to Chihiro no kamikakushi (Spirited Away)

Ég fór að grennslast fyrir um þessa mynd þegar ég kom heim af Nótt á vetrarbrautinni sem var sýnd á RIFF. Fann Spirited Away á http://www.imdb.com/ og komst að því að hún er í 57. sæti á topplistanum þar. Andstætt leiðinlegu geimköttunum í Nótt á vetrarbrautinni er þessi mynd með þeim betri sem ég hef séð. Þetta er japönsk anime mynd, rétt eins og N.á v. en algjör andstæða við hana. Hún er miklu flottari, skýrari og einfaldlega betri.
Söguþráðurinn er á þá leið að stelpa lendir á svæði sem er einhverskonar hvíldarstaður guða. Guðir af öllum stærðum og gerðum koma þangað til að skemmta sér. Foreldrar stelpunnar breytast í svín þegar þau falla í einhverja gildru og hún lendir í ótal hremmingum við að reyna að breyta þeim aftur og fara frá þessum stað. Ég er kannski ekki að lýsa þessu nógu vel, hljómar kannski fáránlega en þetta er samt geðveik mynd. Mjög dularfull, minnir á Lísu í Undralandi.
Það er soldið síðan ég sá þessa mynd svo ég man hana ekkert í smáatriðum. Verð að horfa á hana aftur við tækifæri.


Gef henni 4/5 stjörnur.

sunnudagur, 14. október 2007

RIFF: Rótleysi (vegleg færsla)



Besta myndin sem ég sá á kvikmyndahátíðinni. Miðað við hinar myndirnar sem ég sá var þessi meistarastykki. Ég hélt að það rötuðu bara perlur kvikmyndagerðar inn á svona hátíð og þess vegna voru væntingar mínar kannski of miklar fyrir flestar myndirnar. Þar sem ég er enginn kvikmyndaséní höfðuðu kannski ekki allar myndirnar til mín. Japanska anime myndin Nótt á vetrarbrautinni var að mínu mati langdregin og leiðinleg, þótt ég sé nokkuð hrifinn af þesskonar myndum. Þið, lifendur og Eigið þér annað epli voru steiktar myndir sem áttu sín moment en voru í heildina engin meistarverk. Sömu sögu má segja um Stelpur rokka. En Rótleysi fannst mér mjög góð. Skemmtileg gamanmynd með snilldar söguþræði.
Myndin fjallar um þrjá afar ólíka menn sem leggja af stað í ferðalag um Tékkland til þess að gifta þann yngsta og minnir söguuppbyggingin svolítið á Little Miss Sunshine (þunglyndi sonurinn í LMS samsvarar syninum í Rótleysi). Þeir stoppa á ýmsum stöðum og lenda sömuleiðis í ýmsum hrakninum. Mér fannst sérstaklega gaman að þessari mynd því Tékkland er svo ótrúlega líkt Póllandi, allavega í landslagi og tungumáli (ég ætlaði nú að fara á pólsku myndina Híena en heyrði hroðalega dóma um hana svo ég sleppti því). Sjálfur hef ég nú ferðast um Pólland og Tékkland og það dró mig enn meira inn í myndina. Persónurnar nota orðið ''kurva'' óspart og af einhverjum ástæðum hló salurinn alltaf þegar það var nefnt.
Aðal uppistaða myndarinnar eru skemmtilegar persónur og góður söguþráður. Mennirnir þrír eru af sígaunaættum, en sýna það þó mismikið. Aðalpersónan er Jura, siðmenntaður maður sem vill ekki halda í við sígaunahefðina. Pabbi hans, Roman, er svona mitt á milli nútímans og gömlu sígaunatímanna. Þriðji maðurinn er svo frændi þeirra, Stano. Hann er stoltastur af sígaunaarfleiðinni og þykist vera 100% sígauni, en er það í rauninni ekki. Í upphafi vill Jura ekkert með þessa ferð hafa en skoðun hans breytist þegar líður á ferðina. Þetta er svosem ósköp klisjukennt en söguþráður myndarinnar í heild er nokkuð frumlegur. Í myndinni er verið að segja aðra sögu, þ.e. Roman er að skrifa sögu sem hann vill að verði sígaunaepík. Gegnum myndinni er svo alltaf skipt reglulega á milli raunveruleikans og sögunnar sem hann er að skrifa, og sú saga er ansi skemmtileg.
Myndin fær bara 5,5 á IMDB sem er óskiljanlegt og sýnir að það er ekkert alltaf hægt að stóla á þá síðu. Ég gef myndinni 4 stjörnur af 5 mögulegum og mæli eindregið með henni. Bíóhúsin ættu að skella henni í sýningar.

RIFF: Eigið þér annað epli? (vegleg færsla)


Súrrealísk mynd frá Íran sem meikar ekkert sens, en er samt nokkuð skemmtileg. Myndin fjallar um svangan og sauðheimskan mann sem gerir ekkert annað en að borða og hlaupa. Við eltum hann um furðulegt land þar sem strangir og dularfullir gaurar á mótorhjólum með ljái ráða ríkjum. Maður veit ekki hvort þessir menn eiga að tákna eitthvað og hvort þetta sé einhver ádeilumynd en það er aldrei minnst á trúarbrögð eða þjóðflokka.
Feiti furðufuglinn sem getur hlaupið endalaust ber myndina uppi og fer á kostum. Hann getur ekki hætt að hugsa um mat og gengur illa að fá hann. Hann er mjög einfaldur í hugsun og minnir á Hómer Simpson, fyrir utan hlaupahæfileikann. Svörtu ljáarmennirnir geta aldrei náð honum því það eina sem hann er góður í er að hlaupa. Hann er hetjan í myndinni og berst gegn harðstjórninni en klúðrar í rauninni málunum hvar sem hann fer. Hann er ekki þessi dæmigerða hetja, enda sköllóttur og feitur vandræðapési. Söguþráður myndarinnar er mjög frumlegur og furðulegur um leið. Á flakki sínu um landið ráfar hetjan inn í ýmis þorp þar sem skrítnar reglur yfirvalda ákvarða líf fólksins. Í einum bænum er fólkinu t.d. skipa að sofa mest allan daginn og ég skil ekki hvernig þorpsbúar halda sér á lífi. Myndin dalar svolítið þegar líður á og þetta nýja frumlega hættir að vera fyndið (svipað og í Þið, lifendur).
Það er ýmislegt skrýtið í myndinni. Mesta athygli vekur hljóðið og sum lítil hljóð sem ættu varla að heyrast eru mögnuð upp og t.d. þegar söguhetjan fær sér bita af brauði með fullt af öðrum hljóðum í bakgrunni heyrist ógnarhátt ’’KRSKTJ’’ þegar hann bítur í það. Slagsmálin í myndinni eru líka mjög kjánaleg. Fólk virðist alltaf vera í gamnislag og slagsmálin eru aldrei mjög raunveruleg. Það er líka stórfurðulegt þegar hetjan tekur sjálfa sig sem gísl í eitt skiptið til að sleppa frá vondu köllunum. Gef myndinni 3 stjörnur af 5 mögulegum.

fimmtudagur, 4. október 2007

RIFF: Þið, lifendur (Du levande)

Nokkuð lúmsk mynd. Ég var fullur eftirvæntingar fyrir hana, enda heyrt góða hluti. Ég hafði kannski of miklar væntingar fyrir myndina, því eftir á fannst mér hún ekkert meistarstykki, bara ágæt. Aðaleinkenni myndarinar er myndatakan, sem er mjög sérstök því myndavélin er (næstum) alltaf kyrr. Öll atriðin eru bara einn rammi sem hreyfist ekkert.
Myndin byrjaði mjög fersk með þunglyndri syngjandi kellingu og í kjölfarið fylgdu snilldaratriði um t.d. hlægilegan hljóðfæraleikara og brotið postulín. Atriði þar sem dómarar í réttarsal þamba bjór, láta eins og á uppboði og senda svo mann í rafmagnsstólinn fyrir að brjóta nokkra diska (og yfir 200 ára gamla skál) er snilld. Eftir þetta dalaði myndin svolítið og það eina sem skemmti mér var miðaldra kona sem gat ekki hætt að hlæja. Sama þótt ekkert merkilegt væri í gangi hló hún og hló. Mér var þó farið að leiðast í endinn, og meira að segja konan hætti að hlæja þegar leið á. Í myndinni er fullt af lúmskum brandörum og mörg atriðin mjög kómísk. Samt sem áður voru mörg þessara atriða í leiðinni frekar dauf og langdregin. Söguþráðurinn var í raun enginn, bara atriði sem tengdust af og til.

Myndin fær 3 stjörnur af 5 mögulegum.

miðvikudagur, 3. október 2007

RIFF: Svæfandi nótt á vetrarbrautinni

Var þetta pabbi bleika kattarins á brúnni? Hvaða gulu þríhyrningar voru þetta? Afhverju svaraði moldvarpan í prentsmiðjunni ekki símanum?
Þessar spurningar og ótal fleiri skyldi myndin Nótt á vetrarbrautinni eftir sig. Þetta var japönsk anime teiknimynd. Ég hafði þónokkrar væntingar fyrir þessa mynd eftir að hafa séð frábæra mynd í sama flokki síðasta aðfangadag sem hét Spirited Away. Mæli með þeirri mynd. Get ekki sagt það sama um þessa. Við fórum þrír saman á hana en dottuðum allir yfir henni. Það var aðeins eitt sem stóðst væntingar og það var hversu súr myndin var. Allt annað, eins og söguþráðurinn og teikningin var hörmung. Myndinni er lýst svo á http://www.riff.is/: Myndin segir frá tveimur köttum sem fara í ævintýralegt ferðalag út í geiminn á járnbraut sem ferðast á milli stjarnanna. Þetta er falleg og tímalaus saga um lífið, dauðann, vináttu og missi. Puff... hljómar nokkuð spennandi en var það ekki. Fullt af glórulausum atriðum í þessari mynd og ekki tók ég eftir fallegri og átakamikilli sögu.
Á undan myndinni var sýnd japönsk stuttmynd sem var betri en aðalmyndin. Hún var teiknuð drungalega og músíkin í samræmi við það, sem skapaði spennuþrungið andrúmsloft. Hún fjallaði um tvo veiðimenn sem þvælast inn á stórfurðulegan veitingastað í skóginum.

Nótt á vetrarbrautinni fær 1,5 stjörnu af 5 mögulegum.

The General

Þótt myndin væri á topp tíu kennarans hafði ég mínar efasemdir. Ég bjóst við leiðinlegri svart-hvítri, þögulli og langdreginni mynd. Þótt hún reyndist svo vera svart-hvít og þögul var hún síður en svo leiðinleg. Hún var frábær! Veiklulegi trúðurinn sem titlaði sig sem lestarstjóra í byrjun myndarinnar sýndi fantaleik. Hann náði að gera aulahúmor fyndinn. Allir halda með lestarstjóranum og þrátt fyrir að hann sé algjör klaufi og nánast heyrnarlaus er hann hetja í enda myndarinnar. Þótt myndin sé frá 1927 eldist hún frábærlega og enn í dag er þetta meistaraverk. Það er "action" alla myndina og aldrei dauður punktur. Ógleymanlegur svipurinn á einum af liðsforingjum Norðurhersins eftir að hafa sent birgðalestina ofan í ána.

Myndin fær 4 stjörnur af 5 mögulegum.

miðvikudagur, 19. september 2007

Veðramót


Ég mætti 10-15 mín. of seint á myndina því Purkhús var svo lengi að pumpa í ræktinni. Ef það er eitt sem ég hata þá er það að missa af byrjun á myndum. Oft gerist eitthvað merkilegt í byrjun og það tekur langan tíma að fatta hvað er í gangi. Ég komst þó fljótt inní söguþráð Veðramóta.

Myndin er þrusuvel gerð og skartar góðum leikurum. Hilmir Snær sýnir fantaleik og sannar sig sem einn besti leikari þjóðarinnar. Persónan Dísa er mjög vel leikin og er eitt mesta ómenni sem ég hef séð og með betri skúrkum íslenskrar kvikmyndasögu. Hún var allan tímann með eitthvað djöfullegt plott og maður var hræddur við hana. Sammi er einnig mj0g vel leikinn. Söguþráður myndarinnar er einnig frábær og umhverfið var mjög flott. Ég hélt að þessi mynd yrði um barnamisnotkun í tengslum við Breiðavíkurmálið en síðan kom í ljós að Veðramót var nokkuð huggulegur staður. Það er fortíð krakkanna sem er hryllingur.

Ég fann ekki fyrir því að ég væri að horfa á íslenska mynd, öfugt við Astrópíu þar sem kjánahrollurinn var allsráðandi. Skrýtið að þessi mynd fái miklu minni aðsókn en Astrópía.

Myndin fær 3,5 stjörnur af 5 mögulegum.

laugardagur, 15. september 2007

American Movie


Ótrúlega langdregin mynd sem á þó sína gullnu kafla. Myndin fjallar um ruglaðan gaur (Mark) sem á sér þann draum að verða ríkur og frægur leikstjóri. Það tekst þó ekki hjá honum, og mun líklega aldrei takast, þar sem hann er algjör amatúr, bláfátækur og stórskrýtinn. Myndin sýnir nokkur ár úr lífi hans þar sem hann er að reyna að klára myndina Coven. Þökk sé ótrúlegri þrjósku tekst það að lokum. Coven er samt bara um 40 mín. og ég efast um að hún sé meistarverk (fær 4,2 á imdb).
Aðal skemmtunin við myndina eru persónurnar og þær halda henni á floti. Mark ásamt steikta vini sínum og Uncle Bill eru með furðulegri mönnum sem ég hef séð.
Ég var farinn að dotta yfir þessari mynd, enda oft langir kaflar þar sem lítið merkilegt var að gerast. Ég vaknaði svo við atriðið þar sem gamli skröggurinn, Uncle Bill, er að reyna að rausa örfáum setningum út úr sér við tökur myndarinnar Coven (http://www.youtube.com/watch?v=-v1UddiYpfQ).

Myndin fær 2,5 stjörnur af 5 mögulegum.

fimmtudagur, 30. ágúst 2007

Astrópía



Óvenju vinsælt þykir að blogga um myndina Astrópíu um þessar mundir og ég hef ákveðið að fylgja straumnum.
Hef lítið vit á klippingu, lýsingu og þannig hlutum, svo égMyndin er í raun fyrsta sinnar tegundar á Íslandi, þ.e. ævintýra/gamanmynd. Flestir eru sammála um að myndin er mjög vel heppnuð og ég er einn af þeim. Söguþráðurinn er afbragðsgóður og frumlegur að vissu leyti. Þó að óteljandi bardagamyndir hafi verið gerðar eru fáar sem fjalla um gellu í nördabúð sem sogast bókstaflega inn í heim nörda. Leikararnir sýna nú enga meistaratakta en skila sínu samt ágætlega, enda ekki til mikils af þeim krafist (nema kannski tilfinningarnar sem fylgja neistafluginu milli Hildar og Dags, og þar tekst Degi að láta manni líða kjánalega). Tónlistin var fín, blanda af nýjum íslenskum lögum og búlgarskri sinfóníu. læt það ósagt að dæma þá.

Myndin fær 2,5 stjörnur af 5 mögulegum.